Vel heppnaðar foreldrakynningar

Vel heppnaðir foreldrafundir, samvinna, öryggi og farsæld í forgrunni!
Í vikunni hélt Engjaskóli vel sótta og árangursríka foreldrafundi þar sem öryggi, velferð og farsæld nemenda voru í brennidepli.
Dagbjört Þorsteinsdóttir, verkefnastjóri foreldrasamstarfs hjá SFS og þeir Ragnar Harðarson og Trausti Jónsson frá Austurmiðstöð komu í heimsókn og héldu áhugaverða og gagnlega kynningu fyrir foreldra.
Í erindi þeirra Ragnars og Trausta var lögð sérstök áhersla á mikilvægi þess að foreldrar komi í veg fyrir eins lengi og hægt er að börn hafi aðgang að samfélagsmiðlum.
Ef barnið fær leyfi foreldra fyrir samfélagsmiðlum þá er mikilvægt að foreldrar fylgist með hvaða öpp eða samskiptaleiðir börnin þeirra nota í snjalltækjum og í tölvuleikjum.
Þeir hvöttu foreldra eindregið til að vera virkir þátttakendur í stafrænu lífi barna sinna.
Einnig að mikilvægt væri að eiga samtalið við börn um samfélagsmiðla og öpp og þekki miðlana. Að skoða reglulega símana með börnunum. Munið að það sem börnin sjá er ekki það sama og foreldrar fá og sjá.
„Veröldin er opin fyrir börnin en við megum ekki gleyma að veröldin hefur einnig aðgang að þeim“ sögðu þeir og minntu á að samskiptaöpp og tölvuleikir geta opnað dyr að óæskilegum áhrifum ef ekki er fylgst með.
Þeir ræddu einnig um svokallaða „heita reiti“ í hverfinu, staðir þar sem óæskileg samskipti barna og unglinga geta átt sér stað.
Foreldrar voru hvattir til að vera vakandi fyrir þessum stöðum og ræða saman um hvernig best sé að bregðast við. Mikil áhersla var lögð á samvinnu foreldra það að tala saman, hafa sameiginlegar reglur, deila upplýsingum og styðja hvert annað. „Samvinna er besta forvörnin“ sögðu allir fyrirlesarar og undirstrikuðu að þegar foreldrar standa saman eykst öryggi barnanna.
Þeir skoruðu einnig á fólk að hafa samband við þá ef einhverjar spurningar vakna eða fólk óskar ráðgjafar eða samtals.

Dagbjört Þorsteindóttir, verkefnastjóri foreldrasamstarfs hjá SFS, ræddi um mikilvægi góðs samstarfs heimila og skóla og benti á bæði innlendar og erlendar rannsóknir sýni að gott samstarf á milli skóla og heimila skipti miklu máli og sömuleiðis samstarf foreldrahópa. Slíkt samstarf hafi jákvæð áhrif á líðan barna, bekkjarbrag og gegni mikilvægu forvarnarhlutverki.
Dagbjört mun á næstu vikum hitta foreldra í öllum árgöngum Engjaskóla til að vinn með þeim að gerð farsældarsáttmála. Með sáttmálaum koma foreldrar með sameiginleg viðmið og reglur sem þeir fylgja til að stuðla að velferð barna sinna”.
Sáttmálinn verður hengdur upp í kennslustofunni með undirskrift allra foreldra/forráðamanna sem tákn um sameiginlega ábyrgð og stuðning við farsæld barna.
Foreldrar eiga von á pósti frá skólanum með tímasetningu á þessum fundum og er mikilvægt/nauðsynlegt að allir foreldrar/forráðamenn mæti.
Við þökkum öllum sem mættu og tóku virkan þátt því samvinna heimila og skóla er lykillinn að farsælu skólastarfi.
