Hamingjuhópurinn
Kæru foreldrar/forráðamenn.
Nú hefur nýtt skólaár hafið göngu sína og það á einnig við um Hamingjuhópinn. Hamingjuhópurinn samanstendur af stúlkunum í 6. bekk Engjaskóla. Stúlkurnar mæta í Hamingjuhópstíma til mín einu sinni í viku á mánudögum þar sem fram fer félags- og tilfinningalegt nám í anda Sue Roffey, eins fremsta kennismiðs í félags- og tilfinningalegu námi barna í dag.
Rannsóknir sýna að stúlkur á Íslandi frá 6. bekk og upp í 10. bekk upplifa meiri vanlíðan en drengir og eru frekar einmana (Íslenska æskulýðsrannsóknin, 2025; Skólapúlsinn 2024 ).
Á mánudaginn 10. nóvember fóru stúlkurnar inn í 3. – 7. bekk skólans í litlum hópum og kynntu jákvæð inngrip sem nemendur skólans framkvæma með aðstoð umsjónarkennara.
Þið fáið hér sent heim sama vinnuhefti og kennarar fá. Með því getið þið kynnt ykkur námsefnið en fyrsta jákvæða inngripið nefnist Þrír góðir hlutir.
Jákvæðu inngripin verða sjö, eitt á viku og verður þeim safnað saman í Hamingjumöppu, ferilmöppu sem nemendur frá 3. – 7. bekk fá í hendurnar. Þessar ferilmöppur fylgja nemendum því frá 3. bekk og þar til skólagöngu lýkur í Engjaskóla.
Rannsóknir hafa sýnt að jákvæð inngrip auka hamingju og vellíðan, þær má lesa um hér, rannsóknir á áhrifum jákvæðra inngripa. Rannsóknir sýna jafnframt að það að sinna jafningjafræðslu eins og stúlkurnar í 6. bekk koma til með að gera, eykur sjálfstraust, trú á eigin getu og styrkir sjálfsmyndina. Með þeirra aðkomu er lagt upp með að efla þær og styrkja og um leið allt skólasamfélagið en áhersla er lög á að auka hamingju nemenda og draga úr einmanaleika þeirra.
Rannsóknir sýna að það að eiga í góðum innihaldsríkum samskiptum er verndandi þáttur varðandi andlega velferð en einmitt það laða jákvæð inngrip fram.
Með Hamingjuhópnum er brugðist við niðurstöðum rannsókna; Skólapúlsins, Íslensku æskulýðsrannsóknarinnar og PISA (Anna Kristín Sigurðardóttir o.fl., 2023). varðandi líðan nemenda.
Hér koma upplýsingar um mig. Ég heiti Bryndís Ingimundardóttir og er myndmenntakennari í Engjaskóla. Ég lauk nú í haust MA námi í uppeldis- og menntunarfræðum með áherslu á jákvæða sálfræði í uppeldi og menntun við HÍ. Ég er með diplómanám í áhættuhegðun og velferð ungmenna frá sama skóla og hef lokið markþjálfanámi, í grunninn er ég með B.ed. menntun. MA ritgerðin mín nefnist Hamingjuhópurinn „Núna er maður miklu hugrakkari“ og má finna hér á Skemmunni https://hdl.handle.net/1946/51536
Bestu kveðjur,
Bryndís Ingimundardóttir